þriðjudagur, maí 17, 2005

Tungumál ... það er málið

Ég hef alltaf verið tungumálamanneskja. Tungumál hefur alltaf vakið áhuga minn. Ég man eftir mér, mjög ungri, þegar ég var að leika mér með gamla enska orðabók sem mamma átti. Bókin var gefin út í kringum 1960, ensk-ensk orðabók með myndum. Ég sat með bókina við hliðina á mér og með litríkar perlur fyrir framan mig sem ég var búin að skipta upp eftir litum. Svo þóttist ég vera norn og búa til seið úr galdrabókinni minni með myndunum. Jafnvel þá, skildi ég að mátturinn kom frá orðunum.
Þegar ég var um fjögurra eða fimm ára gömul sat ég inni í stofu með foreldrum mínum að horfa á fréttirnar. Fréttamaðurinn var að tala við Dana og talaði við hann á dönsku. Það tók mig heillangan tíma að fatta að þarna var annað tungumál á ferð og þá fór ég að hugsa. Ég skil mömmu og pabba og ég skil fréttamanninn, en ekki núna þegar hann er að tala annað tungumál. Hvernig fer maðurinn sem hann er að tala við að skilja hann þá líka. Hvernig fara aðrir Danir að því að skilja hvorn annan. Enn þann dag í dag er ég að velta þessu fyrir mér.
Ég hreinlega bara skil ekki af hverju við getum ekki af eðlisávísun bara skilið annað tungumál. Af hverju þurfum við að læra þau, mér fannst endilega að ég ætti að geta munað tungumálið og skilið það þannig.
Með þessu var framtíð mín skilgreind, held ég. Í gegnum skólagöngu mína lærði ég (náttúrulega) íslensku, með misjöfnum árangri, dönsku, ensku, frönsku og þýsku. En það var ekki nóg. Það var eitt tungumál sem hafði heillað mig síðan ég var fjórtán ára gömul og það var gelíska. Þegar tækifærið gafst fór ég í nám til Háskólans í Glasgow og hóf tveggja ára nám í gelísku. Ég get alveg verið hreinskilin og sagt að það er erfiðasta tungumál hingað til sem ég hef lagt fyrir mig að læra. Einu get ég kennt vinum mínum um, sem ég hef kynnst hér og það er að þeir kynntu mig fyrir Bollywood myndum og Hindi, Punjabi og guð má vita hvaða öðrum tungumálum og mállýskum þeir troða inn í myndirnar.
En þarna komst ég að einu, svolítið sérstöku. Ég er nokkuð góð í að læra tungumál á því að heyra þau og nema náttúrulega heldur en út frá málfræðinni einni. Ég gæti örugglega haldið uppi einföldum samræðum, en þó með nokkrum orðaforða, í Hindi. En það er vandamálið með gelískuna. Það er ekkert fyrir mig hérna að nema tungumálið eðlilega, í sjónvarpinu eru venjulega bara sýndir leiðinlegir ferðaþættir með sama orðaforðann aftur og aftur og það er einungis þegar ég er heppin að ég fæ góða stjórnmála þátt með ýmsum líflegum umræðum sem ég er ánægð.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home