þriðjudagur, maí 17, 2005

Uppspretta þekkingar

Leigubílsstjórar geta stundum komið skemmtilega á óvart og stundum langar manni að biðja þá um að stoppa og hleypa sér út áður en eitthvað alvarlegt kemur fyrir. Í dag lenti ég hjá skemmtilegum og fróðum bílstjóra og fórum við að tala um Highland Clearances og gelísku. Hann var með þó nokkuð á hreinu en sums staðar gætti þó smá misskilnings. Eins var hann viss um það að Highland Clearances væru bara byggðar á misskilningi einum sama, af því að það sem var þýtt yfir frá ensku yfir á gelísku hefði einhvern veginn glatast í þýðingunni. Það var alls ekki svo einfalt, en þarna kom fram enn eitt álitið að það var tungumálið sem væri vandamálið.
Fyrir nokkru tók ég leigubíl með vinkonu minni og eins og endra nær erum við spurðar hvaðan við séum og hvað við erum að læra hérna í Glasgow. Við svörum og tökum þátt í samræðunum eins og alltaf og oft mjög gaman, en ekki þarna. Nei, ég endaði í hávaða rifrildi við bílsstjórann sem fannst það sjálfsagt að hvert á land og hvar sem er í heiminum sem hann færi þá væri þar til fólk sem talaði ensku og þá væri enginn ástæða fyrir sig að læra önnur tungumál. Þið getið sko aldeilis haldið að ég hafi sprungið og var ég fljót að benda honum á að það væri frekar þröngtýnt af honum. Hann skildi ekkert í því að ég væri að koma til Skotlands til að læra gelísku, tungumál sem hann hafði engin not fyrir. Ég var nú fljót að benda honum á að ég kæmi sjálf frá landi þar sem tungumálið okkar væri nú varla útbreiddara heldur en gelískan og að ég gerði sko ekki ráð fyrir því að hvert sem ég færi væri einhver sem skildi hvað ég væri að væla út á götu. Fynndist mér það bara sjálfsögð kurteisi að geta ávarpað fólk á þeirra eigin tungu. Hann var ekkert að skilja þetta og þegar maður lendir á svona fólki finnst manni maður óneitanlega vera að tala við steinvegg. En þetta er álitið á gelísku í dag. Það er engin not fyrir hana af því að enskan er töluð alls staðar. Leigubílsstjórinn gat nú ekki setið á sér við að benda mér líka á það að ég væri að eyða miklum peningum í að koma hingað til að læra nærri útdautt tungumál og ég ætti að sjá sóma minn í að eyða peningunum í eitthvað þarfara heldur en menntun!
En ég verð að segja það að hvað sem því líður þá er ég ekki að þessu peninganna vegna. Frekar vil ég þá enda uppi sem menntaður leigubílsstjóri heldur en þröngsýnn!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home