föstudagur, maí 20, 2005

Komdu og skoðaðu í kistuna mína

Is anns an sgaoil eile cuideachd,
san robh saor na h-inntinn a'locradh,
cha tug mi 'n aire do na cisteachan-laighe,
get a bha iad nan suidhe mun cuairt orm;
cha do dh'aithnich mi 'm bréid Beurla,
an líomh Gallda bha dol air an fhiodh,
cha do leugh mi na facail air a'phráis,
cha do thuig mi gu robh mo chinneadh a'dol bás.
Gus an tainig gaoth fhuar an Earraich-sa
a locradh a'chride;
gus na dh'fhairich mi na tairgean a'dol tromhan,
's cha chlánaich tea no cómhrad an crádh.
Þessar línur eru úr síðasta erindi úr ljóðinu 'Ceisteachan-laighe' (Líkkistur) eftir Ruaraidh MacThómais (Derick Thomson). Derick Thomson er mjög virt ljóðskáld í Skotlandi og var um tíma bæði prófessor í Celtic og Head of Department of Celtic í Edinborg og í Glasgow. Í þessu ljóði er hann að lýsa fyrir okkur föðurafa sínum sem var smiður og vann til dæmis við að smíða líkkistur. Í fyrsta erindinu talar hann um afa sinn, þar sem hann var að vinna við smíðarnar á kistunum og hann talar um hvað hann hafi verið ómeðvitaður um kisturnar, þetta hafi bara verið eins og hvert annað umhverfi fyrir hann. Í erindi númer tvö afi hans látinn og hann fer langa eftir því sem hann þekkti og var kunnuglegt. En það er í þriðja og síðasta erindinu sem annað fer að koma í ljós. Derick Thomson ber saman kisturnar og tungumálið sem hann ólst upp við. Hvað hann hafi verið ómeðvitaður um hvað enskan var að ryðja sér rúm í lífi hans, og að það hafi næstum því ekki fyrr en of seint runnið upp fyrir honum raunin að gelískan var í virkilegri hættu að deýja út og það sé honum þungt fyrir hjarta.
And in the other school also,
where the joiners of the mind were planing,
I never noticed the coffins,
though they were sitting all round me;
I did not recognise the English braid,
the Lowland varnish being applied to the wood,
I did not read the words on the brass,
I did not understand that my race was dying.
Until the cold wind of this Spring came
to plane the heart;
until I felt the nails piercing me,
and neither tea nor talk will heal the pain.

þriðjudagur, maí 17, 2005

Uppspretta þekkingar

Leigubílsstjórar geta stundum komið skemmtilega á óvart og stundum langar manni að biðja þá um að stoppa og hleypa sér út áður en eitthvað alvarlegt kemur fyrir. Í dag lenti ég hjá skemmtilegum og fróðum bílstjóra og fórum við að tala um Highland Clearances og gelísku. Hann var með þó nokkuð á hreinu en sums staðar gætti þó smá misskilnings. Eins var hann viss um það að Highland Clearances væru bara byggðar á misskilningi einum sama, af því að það sem var þýtt yfir frá ensku yfir á gelísku hefði einhvern veginn glatast í þýðingunni. Það var alls ekki svo einfalt, en þarna kom fram enn eitt álitið að það var tungumálið sem væri vandamálið.
Fyrir nokkru tók ég leigubíl með vinkonu minni og eins og endra nær erum við spurðar hvaðan við séum og hvað við erum að læra hérna í Glasgow. Við svörum og tökum þátt í samræðunum eins og alltaf og oft mjög gaman, en ekki þarna. Nei, ég endaði í hávaða rifrildi við bílsstjórann sem fannst það sjálfsagt að hvert á land og hvar sem er í heiminum sem hann færi þá væri þar til fólk sem talaði ensku og þá væri enginn ástæða fyrir sig að læra önnur tungumál. Þið getið sko aldeilis haldið að ég hafi sprungið og var ég fljót að benda honum á að það væri frekar þröngtýnt af honum. Hann skildi ekkert í því að ég væri að koma til Skotlands til að læra gelísku, tungumál sem hann hafði engin not fyrir. Ég var nú fljót að benda honum á að ég kæmi sjálf frá landi þar sem tungumálið okkar væri nú varla útbreiddara heldur en gelískan og að ég gerði sko ekki ráð fyrir því að hvert sem ég færi væri einhver sem skildi hvað ég væri að væla út á götu. Fynndist mér það bara sjálfsögð kurteisi að geta ávarpað fólk á þeirra eigin tungu. Hann var ekkert að skilja þetta og þegar maður lendir á svona fólki finnst manni maður óneitanlega vera að tala við steinvegg. En þetta er álitið á gelísku í dag. Það er engin not fyrir hana af því að enskan er töluð alls staðar. Leigubílsstjórinn gat nú ekki setið á sér við að benda mér líka á það að ég væri að eyða miklum peningum í að koma hingað til að læra nærri útdautt tungumál og ég ætti að sjá sóma minn í að eyða peningunum í eitthvað þarfara heldur en menntun!
En ég verð að segja það að hvað sem því líður þá er ég ekki að þessu peninganna vegna. Frekar vil ég þá enda uppi sem menntaður leigubílsstjóri heldur en þröngsýnn!!!

Tungumál ... það er málið

Ég hef alltaf verið tungumálamanneskja. Tungumál hefur alltaf vakið áhuga minn. Ég man eftir mér, mjög ungri, þegar ég var að leika mér með gamla enska orðabók sem mamma átti. Bókin var gefin út í kringum 1960, ensk-ensk orðabók með myndum. Ég sat með bókina við hliðina á mér og með litríkar perlur fyrir framan mig sem ég var búin að skipta upp eftir litum. Svo þóttist ég vera norn og búa til seið úr galdrabókinni minni með myndunum. Jafnvel þá, skildi ég að mátturinn kom frá orðunum.
Þegar ég var um fjögurra eða fimm ára gömul sat ég inni í stofu með foreldrum mínum að horfa á fréttirnar. Fréttamaðurinn var að tala við Dana og talaði við hann á dönsku. Það tók mig heillangan tíma að fatta að þarna var annað tungumál á ferð og þá fór ég að hugsa. Ég skil mömmu og pabba og ég skil fréttamanninn, en ekki núna þegar hann er að tala annað tungumál. Hvernig fer maðurinn sem hann er að tala við að skilja hann þá líka. Hvernig fara aðrir Danir að því að skilja hvorn annan. Enn þann dag í dag er ég að velta þessu fyrir mér.
Ég hreinlega bara skil ekki af hverju við getum ekki af eðlisávísun bara skilið annað tungumál. Af hverju þurfum við að læra þau, mér fannst endilega að ég ætti að geta munað tungumálið og skilið það þannig.
Með þessu var framtíð mín skilgreind, held ég. Í gegnum skólagöngu mína lærði ég (náttúrulega) íslensku, með misjöfnum árangri, dönsku, ensku, frönsku og þýsku. En það var ekki nóg. Það var eitt tungumál sem hafði heillað mig síðan ég var fjórtán ára gömul og það var gelíska. Þegar tækifærið gafst fór ég í nám til Háskólans í Glasgow og hóf tveggja ára nám í gelísku. Ég get alveg verið hreinskilin og sagt að það er erfiðasta tungumál hingað til sem ég hef lagt fyrir mig að læra. Einu get ég kennt vinum mínum um, sem ég hef kynnst hér og það er að þeir kynntu mig fyrir Bollywood myndum og Hindi, Punjabi og guð má vita hvaða öðrum tungumálum og mállýskum þeir troða inn í myndirnar.
En þarna komst ég að einu, svolítið sérstöku. Ég er nokkuð góð í að læra tungumál á því að heyra þau og nema náttúrulega heldur en út frá málfræðinni einni. Ég gæti örugglega haldið uppi einföldum samræðum, en þó með nokkrum orðaforða, í Hindi. En það er vandamálið með gelískuna. Það er ekkert fyrir mig hérna að nema tungumálið eðlilega, í sjónvarpinu eru venjulega bara sýndir leiðinlegir ferðaþættir með sama orðaforðann aftur og aftur og það er einungis þegar ég er heppin að ég fæ góða stjórnmála þátt með ýmsum líflegum umræðum sem ég er ánægð.

mánudagur, maí 16, 2005

Af hverju Gelíska?

Ég hef óteljandi oft verið spurð af hverju ég er að læra Gelísku og nú svara ég; ég vil kynnast menningu áður en hún deyr. Ég vil gera mitt af mörkum til að verja hana, ég vil að hún geymist í minnum mínum um ókomna framtíð, því með því get ég fullvissað mig að á meðan ég og aðrir skiljum tungumálið og menninguna þá deyr hún ekki. Kallið mig dramatíska, en ég hef kynnst aðstæðunum hérna og útlitið er því miður ekki of bjart. Oft er það hálfgert vonleysi sem kemur yfir mann þegar hugsar um hvað Gelískan stendur frammi fyrir en það er ekkert annað hægt að gera í dag.
Það liggur við að það sé bæði skammarlegt og sorglegt að við vitum svona lítið um þjóð sem er jafn nálæg okkur og Skotland er. Við erum í innan við tveggja klukkutíma flugferðarfjarlægð frá þeim og við tökum ekki einu sinni eftir því að þeir eru að tapa tungumáli sínu vegna þess að 'það er betra fyrir alla að tala BARA ensku!'. Það eru ekki einu sinni margir Íslendingar sem vita að Gelíska er tungumál þeirra. Hingað til hafa þó flestir vonandi vitað að þegar þeir fari til Spánar að Spánverjar tali spænsku og Danir í Danmörku tali dönsku (eða flestir þeirra allavegana) en sára fáir voru með nokkru meðvitaðir um að mörg skiltin sem finnast hér í bæ séu af tungumáli sem um 60 þúsund tali.
Er það bara besta mál að taka auðveldu leiðina út og láta tungumálið gleymast. Þeir gleyma því að með því að tungumál tapist, tapast heill menningararfur sem sama hvernig þeir neita því þá er þetta þeirra menningararfur líka. Þaðan koma þeir, frá hetjusögum og lofsöngvum um höfðingja og hetjur.
Eitthvað mundum við Íslendingar segja ef allt í einu við vökum upp við það að við skiljum ekki Íslendingasögurnar okkur eða Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Eitthvað fyndist okkur tunga okkar og menning hafa misfarist og týnst. Allavegana gæti mér ekki dottið neitt verr í hug en að við öll föllum niður á það menningarstig sem fynnst í myndum á borð við Conan the Barbarian - ÚGA.

Töpuð tunga

'A people without a language of it's own is only half a nation'
(Thomas Davis)
Sem Íslendingar höfum við aldrei þurft að horfa upp á það að tungumál okkar hverfi úr allra minnum. Við höfum aldrei þurft að líða það að það sé litið niður á okkur fyrir það að hafa tungumál sem fáir tala. Við höfum aldrei kynnst því að foreldrar okkar, afar og ömmur leyni fyrir okkur tungumáli sínu af því að það þykir skömm að tala það.
Þetta er það sem Skotar, Írar og Walesbúar þurfa að glíma við í dag og hafa verið að glíma við í þó nokkurn tíma. Í hundruð ár bjuggu þessir grannar okkar við fyrirlitningu frá Englendingum í sambandi við móðurmál þeirra, Gelísku og Welsku. Það undarlegasta við þetta er að þessi útrýming á móðurmáli þeirra fór fram í gegnum 'menntun' þeirra. Englendingar litu á Skota, Íra og Walesbúa sem óæðri kynþátt, ósiðmenntaðan og latan. Þeir þvinguðu enskunni inn, öll menntun fór fram á ensku sama gilti þótt fólk hefði varla neinn skilning á tungumálinu og með ofbeldi þvinguðu þeir fólkið til að hætta að tala móðurmál sitt, í skólum sem og heima hjá sér. Því var haldið fram að það væri tungumál þeirra sem héldi þeim aftur í sambandi við iðntæknivæðinguna á 19.öld. Þetta þurfti fólk að lifa við og þegar börn þeirra uxu úr grasi forðaðist það að tala móðurmál sitt við börnin sín. Þau hættu að sjá tungumál sitt sem eitthvað til að varðveita og kenna áfram.
Í dag eru Skotar og Walesbúar að miklu leyti hunsaðir af Bresku stjórninni, en samt er litið á þau sem hluti af Bretlandi. En þessi LÖND eru svo ólík Englandi og því sem England þarf að það er óskiljanlegt hvernig hægt er að ætla að það sem þjóni Englandi þjóni Wales og Skotlandi líka.
Welsh sem tungumál fékk ekki sama status og Enska fyrr en árið 1998. Írland var í aðeins betri stöðu og árið 1922 varð Írsk Gelíska opinbert tungumál í fyrsta sinn. Enska var svo annað opinbera tungumál þeirra og mátti fólk ráða hvort tungumálið þau notuðu. En Skosk Gelíska var ekki viðurkennt sem tungumál fyrr en um 1960.
Við, Íslendingar, getum talist heppin þar sem tungumál okkar er einstakt og það þekkjum við. Við getum ennþá á mikillar fyrirhafnar lesið skjölin og bækurnar sem eru geymd á Árnastofnun. Við erum öll mjög stollt af íslenskunni okkar, enda heyrist það í hvert sinn sem Íslendingar fara erlendis, þeir eru aldrei feimnir við að láta heyra í sér. Walesbúar voru hræddir við að tala Welsh í sínu eigin heimahúsi af ótta við að einhver kæmist að því og segði til þeirra. Er þetta nokkur leið fyrir fólk að búa og það í dag.
Sem betur fer hefur orðið vakning í málum þessara granna okkar. Þeir berjast fyrir að halda tungumáli sínu lifandi, að reyna að koma í veg fyrir það sem sumir segja að sé víst. Tungumál þeirra MUN deyja út. En á meðan fólk tekur sér tíma og kynnist aðstæðum Gelískunnar og Welskunnar og leggur lið við að varðveita þessi tungumál þá er enn tími til að sporna við útrýmingu þeirra.